23 janúar 2005

Fullt hús

Fékk félagslyndiskast og fyllti húsið af íslenskum konum í hér um daginn. Saumaklúbbur. Þær komu 15 og ein með prjóna (Halla auðvitað). Gaman og veitingar. Bergur flúði í bíó. Ég prjónaði ekkert í boðinu enda upptekin við uppáhellingar og önnur klassísk húsmæðrastörf. Sænska Halldóra (en ekki norska) er búin að senda inn formlega kvörtun vegna bloggskorts af minni hálfu. Ég verð að herða mig og blogga betur, blogga meir.

17 janúar 2005

Meðmæli vikunnar

Finnst sjálfsagt að deila með ykkur því sem mér finnst gott. Því koma hér meðmæli vikunnar. Sjáum svo til hve lengi ég mun kalla þennan lið meðmæli vikunnar. Það fer eftir dugnaði... aðrir möguleikar eru meðmæli mánaðarins eða meðmæli ársins.

Vika 3 (sænskt tímatal):
Asyl eftir Lisu Marklund, fyrsta bókin hennar. Svo mögnuð að hún framkallar líkamleg einkenni spennu (hjartsláttaróreglu, hroll og svita) nánast á hverri síðu. Óskiljanlegt að atburðir sem þar er sagt frá skulu hafa átt sér stað í velferðarríkinu sem ég á heima í akkúrat núna.

101 dagur í Bagdad eftir Åsne Seierstad og þýdd af Ernu stjúpmóður minni. Þetta sést sko ekki á CNN eða Fox news.

Prjón. Þegar ég var ólétt síðast gerðist eitthvað í höfðinu á mér hvað varðar prjónaskap. Skyndilega rann upp fyrir mér ljós og ég skildi hvað málið snýst um. Þetta var mjög svipað og það sem gerðist hjá Neo í lokin á Matrix 1, þegar hann sá allt í einu í gegn um blekkinguna og inn í sjálfann kjarnann. Ehm... hljómar kannski undarlega. Nú hef ég svo tekið upp prjónana á ný og get mælt með þessu tómstundagamani í hvívetna. Gott ráð er að prjóna bara lítil plögg s.s. barnaföt. Þá klárar maður stykkin frekar og hlýtur ánægjuna að launum.

16 janúar 2005

Meðvitaða helgin

Í gær var það Supersize me og í dag Farenheit 911. Niðurstaðan er auðvitað sú að nú verður ekki farið framar og etið undir hinum gylltu bogum... ónei. Morgan var að dauða kominn eftir mánuðinn svo að í tilfelli okkar tæki dauðastríðið kannski áratug eða svo og helst viljum við lifa lengur en það. Bergur fór svo í rúmið með ágætis bók sem við erum búin að eiga í bókahillunni síðastliðið árið eða svo, Fast food nation eftir Eric Schlosser. Lestur hennar dugði ekki til þess að bjarga mér frá hægum McDauðdaga heldur þurfti hreyfimyndir og hrakandi heilsu Morgans Spurlocks til þess arna. Um hina myndina get ég ekkert sagt. Ég er orðlaus og máttlaus. Hvað í ósköpunum á maður að gera. Hætta að drekka kók? Ekki kaupa Dove sjampó aftur? Aldrei ganga í Calvin Klein nærbuxum? Hætta að horfa á Friends? Borða aldrei framar séríós? Hætta algjörlega að taka þátt í Bandaríkjatengdri neyslu? Er það hægt?

11 janúar 2005

Á einhver ellnett?

Sit í Gautaborg. Fólk hér hefur varla minnst á klippinguna. Þetta þykir kannski eðlilegt á Norðurlöndum. Já sveimérþá kannski ætti ég að líta á þetta sem lið í að innlimast í sænskt þjóðfélag. Maður verður nú að leggja sitt af mörkum. Mér hefur þó tekist með undraverðum hætti að hemja greiðsluna og nýt þá liðsinnis nútíma fegrunarvarnings. Annars þyrfti ég ekki margar gusur af Ellnett til að ná hinni frægu John Taylor/Nick Rhodes hárgreiðslu sem ég streðaði mörg unglingsárin við að fullkomna á sjálfri mér.
Verð líka að þakka allar heimsóknirnar og kommentin. Gvuð hvað ég er sátt við að blogga.

09 janúar 2005

Smá æst

Fíla mig hér eins og yfir meðallagi æstan bloggara. Þetta er mitt þriðja blogg á einum og sama deginum. Kannski eru allir bloggarar æstir í byrjun en þynnast svo út með tímanum. Við sjáum til hvernig þetta fer. Verð bara að koma með eina tillögu áður en ég hátta og sofna: að skánska verði bönnuð. Ósóminn er að yfirtaka sænska fjölmiðla með öllu. Nú er það ekki lengur stöku íþróttafréttamaður sem ælir orðunum út úr sér rétt í lok frétta, heldur eru heilu þættirnir undirlagðir af þessum dárum. Það þarf einhvers konar þjóðarátak hér. Svíar eru bara svo djöfullega kurteisir og pólitískt rétthugsandi að málstaður minn er líklega í andaslitrunum nú þegar.

Smá árekstur menningarheima

Ég fékk eina ferðina enn bráðaþörf fyrir að láta klippa á mér hárið. Þetta gerist endrum og eins og þá finn ég ekki ró í mínum beinum fyrr en hár mitt hefur verið skorið. Það var svo líkast olíu á eld að ég er að fara í alvarlega bissnissmyndatöku á morgun. Það hljómar auðvitað fáránlega að mér skyldi detta í hug að fara á klippistofu sem er með bakaríisnúmerahjól í biðstofunni... Reyndar á ég mér eina málsvörn - nefnilega að Hlynur minn var klipptur á sama stað fyrir jólin og það gekk svona ljómandi vel. Ég fékk númerið 95 sem er nú opinber óhappatala mín. Klipparinn var mjög kurteis og hlýlegur en skildi bara ekki neitt af því sem ég reyndi að útskýra. Ég held að ég hafi lamast þarna í stólnum, ég fékk einhvers konar meðaumkunarkast og kóaði miskunnarlaust með veslings klipparanum sem ég held raunverulega að hafi verið að reyna að gera sitt besta. Ég fann meira að segja líkamleg einkenni panikks. Og niðurstaðan er sú að mér líður eins og hokkíspilara sem er að leita sér að næsta snusskammti (snus er ógeðið sem svíar setja í vörina svo að þeir líta út eins og apakettir). Lýsa mætti klippingunni sem mullett, hockeyfrilla eða apecut. Frægir einstaklingar sögunnar sem hafa skartað svipaðri greiðslu eru m.a. Riff Raff, Pálmi Gunnarsson, gaurinn í bíómyndinni Ghostworld, Jón Ásgeir Jóhannesson (sem öllum að óvörum birtist sem veðurfréttamaður á skjánum hér í Svíþjóð, smá aukadjobb býst ég við) og tónlistarmaðurinn Günther.
Jæja þá er ég búin að blogga þetta út úr systeminu og get farið að meta skaðann.

Ákvörðun tekin

Þá hef ég ákveðið að byrja að blogga eins og allir hinir. Mér féll allur ketill í eld þegar ég kynntist tveimur konum hér í Svíþjóð. Þær hafa ekki aðeins veitt mér nægilegan innblástur til að byrja að prjóna lopapeysu... heldur finnst mér ég þurfi að byrja að blogga líka eins og þær gera. Önnur, sem hefur hlotið titilinn sérlegur prjónaráðgjafi hirðarinnar, er með sérstaka bloggsíðu bara um PRJÓN. Held að mín verði aðeins dreifðari hvað umfjöllun varðar. Sá líka í hendi mér að í framtíðinni yrði það fyrirtaks heimild um líf mitt og störf fyrir komandi kynslóðir. Ég mundi að minnsta kosti gjarnan vilja lesa blogg langömmu á Hofsósi eða um líf hinnar langömmunnar á Miklabæ í Skagafirði. Mun jafnvel reyna að hafa þetta yfir meðallagi skemmtilegt. Sjáum þó til.