08 október 2005

Molar úr lífinu

Að búa á hóteli. Mér líður stundum þannig heima hjá mér þessa dagana. Það er aldrei drasl. Já nú held ég að margir hvái við. Ég er samt að segja sannleikann og ástæðan er sú að tengdó býr hjá okkur og er yfirgengilega aktíf í tiltektinni. Hún hefur samt fullvissað mig um að hún geri bara það sem hún nennir að gera og ekki hætishót umfram það... vona að það sé rétt. Svo passar hún litlu skottuna á daginn og er hér búin að redda málum BIG TIME.

Rúna er snillingur. Það var svosem vitað en mér finnst málþroskinn núna vera allsvakalegur. Til dæmis tíðbeygir hún sagnir rétt - tveggjaoghálfs - sagði í morgun "pabbi ég TÓK bókina". Annars talar hún oft eins og lítil kelling, segir við bróður sinn með miklum umhyggjutóni "Hlynur, elskan mín, viltekki fá þér að borða".

Sonurinn er í fermingarbúðum með íslenskum jafnöldrum búsettum í Svíþjóð og Noregi. Í gær tók hann lest einn síns liðs yfir til Gautaborgar þar sem prestur tók á móti honum á brautarpallinum. Smsaði í gær um að ég þyrfti ekkert að hringja... tel það góðs viti. Á leiðina á lestarstöðina í gærmorgun var hann að spá í hvort hann mundi þekkja prestinn á prestabúningnum - sá fyrir sér klerk í messuskrúða bíðandi.

Vert er líka að minnast á að Bergur er byrjaður að vinna í gæsluvarðhaldsfangelsi hér í Österåker. Þar sitja inni reiðir menn sem bíða dóms - flestir að sjálfsögðu ranglega ákærðir, margir í fráhvarfi og vanlíðan. Fangarnir eru samt eins og blíðustu lömb ef miðað er við starfsmennina. Þarna eru samankomnir töffarar sem létu sér lynda fangavarðarbúning með feitri lyklakyppu og handjárnum eftir 5 árángurslausar tilraunir til að komast í lögguna. Ganga um með bringuna breiða, snusa eins og djöflar og beita röddinni valdsmannslega.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home