15 september 2007

Æ fyrst ég er byrjuð...

... get ég nú alveg haldið áfram og sett inn smá meðmæli svo þið hafið eitthvað að bedrífa þegar þið eruð öll búin að ganga í lið með óvinum fátæktar og böls á www.kiva.org :

I döda språks sällskap - bók um útdauð tungumál af indóevrópskum og afróóríentölskum* uppruna (*æ leiðréttið þetta orð fyrir mig elskurnar). Skrifuð af Ola Wikander sem er fæddur áttatíuogfokkingeitt... og greinilega málaséní. Hann TALAR sirka 13 útdauð tungumál, og þá erum við að tala um tungumál eins og súmerísku sem dó út um 2000 fyrir Krist. Garg. Væri ég Ola mundi ég sannarlega nota plássið í heilaberkinum fyrir japönsku, arabísku, rússnesku og farsí svo fátt eitt sé nefnt. Það er frábært að lesa lýsingar hans á sæluhrollinum sem hríslast um líkama hans og sál þegar hann nær breikþrú skilningi á flóknu sagnbeygingakerfi einhverrar löngu dauðrar tungu
The time travellers wife - eftir Audrey Niffenegger. Skemmtilegasta og óvenjulegasta skáldsaga sem ég hef lesið í langan tíma... samt er ég nú alltaf að lesa eitthvað frábært. Eiginmaðurinn þjáist af taugasjúkdómi sem gerir það að verkum að hann dettur stöðugt í tímaflakk og ræður ekkert við það. Þetta veldur ákveðnum vandamálum í samböndum hans við aðra og í félagslífi hans yfirleitt... samt skemmtileg hve lítill fókus er á sjúkdómnum sjálfum heldur frekar á áhrifunum á líf fólks, þá sérstaklega eiginkonunnar.
Män som hatar kvinnor/Flickan som lekte med elden/Luftslottet som sprängdes - eða Millenium trílógían eftir Stieg Larsson. Verst að Stieg fékk hjartaáfall og dó sirka mánuði áður en fyrsta bók trílógíunnar kom út - hann var búinn með allar þrjár, búinn að senda á útgefandann og ganga frá öllu. Eymingja Stieg... og eymingja aðdáendur hans sem eru sólgnir í fleiri ævintýri söguhetjanna úr bókunum þremur. Hann náði ekki að skrifa neitt annað... amk ekki gefa út en sumir segja að fjórða bókin hafi legið hálfkláruð í ibookinni hans þegar hann datt niður og dó. Ég tók ekki þátt í samfélagi manna á meðan ég las bækurnar, þá síðustu hlustaði ég reyndar á í ipoddinum svo ég gat gert eitthvað gagn á meðan, tildæmis vaskaði ég helling upp og braut saman þvott (og telst það nú til tíðinda).

Nú líður að því...

... að ég setji inn mína árlegu afmælisbloggfærslu. Ég hef sætt harðri gagnrýni úr ýmsum áttum en læt hvergi bugast. Þeim æstustu hef ég beint inn á hitt bloggið mitt sem algjörlega er helgað prjóni og handavinnu mörgum til hryllings en þó fleirum til ánægju. Á meðan lesendur bíða eftir afmælisfærslunni vil ég benda þeim á að fara inn á góðgerðarvef og láta nú eitthvað gott af sér leiða í stað þess að hanga á facebook allan daginn.
Góðar stundir
Ragnheiður

03 október 2006

35 í dag

Nú bíð ég bara eftir að aldurskrísan hellist yfir mig. Það bólar þó ekki á henni enn... Í dag ætla ég að sækja Rúnu snemma á leikskólann og við erum boðnar í heimsókn til Guðrúnar og Eyrúnar sem eiga heima sunnan við Stokkhólm. Bergur að vinna til 8. Uppáhaldið verður á fimmtudaginn - við ætlum út að borða (FULLORÐINS) með nokkrum vinum - barnapía og allt græjað!

17 júní 2006

Snudduathöfn á þjóðhátíð

Um daginn fórum við í Skansinn og Rúna fékk að vita hvað verður um snuddur sem börn í Stokkhólmi hætta að sjúga. Þær enda nefnilega á lill-skansen hjá litlum sætum kettlingum sem eiga þar lítið gerði og kofa. Nokkur hundruð þúsund snuddur hafa komið þangað til að setjast í helgan stein og safnið er all-tilkomumikil sjón. Í þessari ferð, sem var fyrir 3 vikum, ákvað Rúna að í næstu ferð skyldi hún taka allar sínar snuddur með í Skansinn og gefa litlu kisunum. Svo kom sautjándi júní og yfir morgunmatnum ræddum við plön dagsins - meðal annars ráðgerða Skansferð. Þá gall við í dóttur minni "já Skansinn, ég vil fara með snuddurnar og gefa dýrunum". Svo fékk hún hjálp við að safna saman öllum snuddunum og binda þær í band, prófaði hverja og eina og kyssti bless. Snuddurnar voru svo skildar eftir hjá litlu kisunum í dag kl 16.05 við hátíðlega athöfn.

09 júní 2006

Flakk

Apríl og maí voru ansi stífir. Mikið flakk og þeytingur vegna vinnu. Ég fer stöðugt á einhverja spennandi staði um allan heim - en sé ekkert nema flugvelli og hótel og útsýni úr leigubílum. Fundir eru stífir og hléin stutt og fá. Í hléum þarf venjulega að hendast í tölvupóstinn og á símafundi því "venjulega" vinnan heldur áfram. Starfið er samt skemmtilegt og skapandi mikilósköp og ekki yfir því að kvarta. Búdapest, Zurich og Barcelona nýlega - Boston, Vilnius og San Diago á næstunni. Norðurlandaflakk alltaf inn á milli. Þær ferðir eru mest kósí, styst flug.

01 apríl 2006

Áskorun svarað

Fjögur störf sem ég hef unnið um ævina
1. Fiskiðjan á Sauðárkróki - þar snyrti ég þorsk (held ég) með gúmmíhanska gula og alltof beittan hníf. Skar mig í puttann. Fannst skemmtilegast þegar ég fékk að spyrða fiska og síðan hengja upp til þerris... úr þessu varð skreið semsagt.
2. Jass sporið - þar kenndi ég djassballett, byrjaði 14 ára. Mest litlum krakkaormum, 3ja til 6 ára. Reyndar voru þau yndisleg og gátu lært helling. Var stundum að kenna laugardaga og sunnudaga 9-5, í dag mundi það eflaust flokkast sem barnaþrælkun.
3. Máttur, Baðhúsið, Kramhúsið - eróbikk og leikfimikennsla. "Þrjú hné"... já og allur pakkinn. Geisladiskasafnið ber merki um þessa vafasömu fortíð, nokkrir ibiza diskar og annað skringilegt. Kramhúsið reyndar í öðrum flokki, þar var leikfimin mjúk og yndisleg, salsaskotin mjög.
4. Novartis í Svíþjóð. Hér vinn ég núna sem produktchef með lyf sem eru notuð eftir líffæraígræðslur. Starfið mitt er stundum hunderfitt, en oftast skemmtilegt. Það felst í að vinna að alls konar verkefnum sem styðja og styrkja söluna á norðurlöndunum.

Fjórar kvikmyndir sem ég get horft á aftur og aftur
1. So I married an axe murderer - brjálæðislega fyndin. Elska húmorinn og hef vitnað í hana all-oft á mínum seinni árum.
2. Íslenski draumurinn - dásamleg sýn á hið séríslenska mikilmennskubrjálæði. Fær líka alveg nýjan vinkil núna þegar ég bý hér í Svíþjóð og hlusta á sænsku meðalmennskuna og endalaus komment um smæð sænsku þjóðarinnar (9 mill).
3. Break dance - hef reyndar ekki séð hana síðan 1985 en verð þó að hafa hana með. Minnir að ég hafi séð hana 17 sinnum Í BÍÓ, og svo kom hún út á videó. Lærði alla dansana og lét mig dreyma um að verða frægur götudansari í ameríku.
4. Fight club - af einskærum pervertaástæðum. Sveittur og blóðugur Brad Pitt er eitthvað svo eggjandi.

Fjórir staðir sem ég hef búið á
1. Ægisstígur 5 á Sauðárkróki - Ömmu og Afahús. Hér átti ég heima þegar ég fæddist og mamma og pabbi og Svenni, Filli, Gudda, Siggi, Raggi og Dúdda (systkyni mömmu). Yndislegt og stórt hús með gulu, bláu, bleiku og fjólubláu herbergi. Búr með magál og smákökum og bílskúr með veiðistöngum og olíulykt. Stjúpur marglitar í beðinu fyrir framan, fáni við hún og grasið grænt.
2. Drápuhlíð 40, ris - Þegar mamma var búin í mastersnámi í Boston fluttum við í Hlíðarnar. Ég var 8 að verða 9 og byrjaði í Hlíðaskóla. Drápuhlíðin kom reyndar ári á eftir Bogahlíðinni. Ég átti fínt herbergi með hvítu og dökkbláu hjartamunstursþema. Kristrún og Bjarni bjuggu á miðhæð og Olga og Raggi á neðri hæð. Það var alltaf lykt af winston og lauksnakki í ganginum og ég fór oft út í búð að kaupa svoleiðis fyrir Kristrúnu.
3. 8 Marvel Trail, RI, USA - flutti þangað 16 ára. Lét mér leiðast óskaplega því ég saknaði kærastans. Horfði á Opruh, borðaði ís og philadelphia cream cheese. Hélt út fram að jólum en flutti þá heim með flunkunýtt bílpróf á sjálfskiptan og hóf sambúð.
4. Kleppur - vann á kleppi og bjó í starfsmannabústað með Hlyni mínum. Gott að vera þar, leikskólinn steinkast frá og drengurinn hljóp um grundir meðal Tjalda og annarra vaðfugla.

Fjórir staðir sem ég hef heimsótt í fríum
1. Krít - fór með Ylfu vinkonu til London og svo keyptum við miða áfram í sólina. Sólin var heit og hótelið ódýrt. Lentum í ýmsum ævintýrum m.a. grískri skírnarveislu.
2. Danmörk - við og við á sokkabandsárunum. Hróarskelda var stundum partur af ferðinni, Biggi frændi líka og þá fékk ég að búa í litla gestahúsinu hans.
3. Brasilía - bland af vinnu og knúsi með Bergi mínum.
4. Prag - ógleymanleg ástarferð með Bergi.

Fjórar síður sem ég skoða daglega
1. www.mbl.is
2. www.viktklubb.se
3. www.google.com
4. www.dn.se

Fjórar bækur sem ég les oft
1. Emil í Kattholti - Astrid Lindgren (fyrir Rúnu mína)
2. Hundrað ára einsemd - Gabriel Garcia Marques
3. My secret garden - Nancy Friday
4. Barnaeyjan - PC Jersild

Fjórir staðir sem ég vildi vera á núna
1. Einhvers staðar með mömmu, catching up!
2. Í Japan með Héðni mínum og Hanako.
3. Á heitum sólríkum stað með Bergi mínum og börnunum okkar.
4 Á Íslandi með fólkinu mínu.

Fjórir sem ég skora á að gera þetta
1. Héðinn bróðir
2. Finnur bróðir
3. Anna Sóley
4. Begga

05 mars 2006

Er ég á Austurlandi?

Í Skärgårdsstad er meiri snjór en ég hef séð á byggðu bóli síðan ég var sirka 10 ára á Króknum. Það snjóaði látlaust í gær, líklega 20 cm jafnfall. Hér kemur snjórinn niður og er kjur þar sem hann lendir þar til hitastig hækkar. Hér fýkur ekki í skafla. Svo fer snjórinn í apríl og kemur ekki fyrr en eftir hálft ár aftur. Þetta hentar okkur ágætlega.

Barnið vill tölvu


  • "Mig langar í tölvu" segir litla skottan. Segir svo að tölvan eigi að vera lítil og með myndum.
    Hún var áðan í baði og hlustaði á tónlist "ég er sko vinur þinn, langbesti vinur þinn" var sungið, þá tautaði skotta "nei pabbi er besti vinur minn".
    Hún syngur mikið og um daginn kom "Það er kúkur í bleiunni, fær aldrei bréf".
  • Svo smellir hún rembingskossi á mömmu sína og segir "ég elllska þig mamma".

13 febrúar 2006

Jólarapport

Nokkrir punktar um jólin. Í heild voru þau yndisleg þó að nokkur barnafæð hafi hrjáð heimilið. Hlynur fór til Íslands til pabba síns um 20 des og tók með sér 700 kíló af jólagjöfum. Þær skiluðu sér misvel og grunar mig að nokkrar vinkonur sitji fornemaðar heima því jólagjafirnar voru sendar með barninu til baka. Það mætti kannski nefna dulítinn lyðrugang hérna megin í þessu samhengi því gjafirnar eru ekki enn farnar í póst... vonandi tekst mér að senda þær fyrir sumarið. Tískan breytist svo hratt.
Maren kom um jólin og var í 3 vikur. Finnur kom líka og var yfir jól, var svo að hálfpiparsveinast niðri á Stureplan - hálf segi ég því huggulegasti kvenmaður gisti hjá honum nokkrar nætur.
Hamborgarhryggur var fluttur inn frá Íslandi og með honum grænar Ora og almennilegt jólabland. Ljúffengt.
Rúna Lóa sýndi fádæma stillingu í pakkafarganinu en naut sín vel. Fékk ýmislegt fallegt í jólagjöf leikföng, föt og bækur, líka pening og keypti sér fína jólakápu.
Að þessu sinni misstum við af jólaballinu því Uppsalaslektið kom allt hingað á annan í jólum. Það var skemmtileg innrás og blandað jólaborð á boðstólnum. Við sungum líka jólalög og höfðum hátt.

Langtífrá ásættanlegt...

... en samt verður þetta svona. Ég mun blogga aðeins þegar andinn kemur yfir mig en ekki til þess að halda í við alla hina ofurbloggarana sem setja inn fréttir af hverju einasta snýtubréfi sem er notað og hverri gulrót sem er skræld. Að því fólki algjörlega ólöstuðu að sjálfsögðu.